Fréttir

Fréttatilkynning vegna flugslyss TF-ARR

Rannsókn á flugslysi TF-ARR í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 7. nóvember 2004

10 nóv. 2004

Rannsóknardeild flugslysa hjá flugmálastjórninni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum rannsakar flugslys TF-ARR sem varð á Sharjah flugvelli þann 7. nóvember síðastliðinn þegar Flugvélinni hlekktist á í flugtaki með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan flugbrautarinnar og eyðilagðist. Flugstjóri flugvélarinnar ákvað að hætta við flugtak eftir að vísbendingar höfðu komið fram um bilun í flugvélinni. Flugvélin var þá nálægt ákvörðunarhraða um flugtak. Ekki náðist að stöðva flugvélina á þeirri vegalengd sem eftir var af flugbrautinni og beindi áhöfnin flugvélinni út af brautinni til vinstri til þess að komast hjá árekstri, meðal annars við aðflugs- og ljósabúnað flugbrautarinnar.

Flugvélin sem er af gerðinni Boeing 747-200 er fjögurra hreyfla vöruflutningaþota frá Air Atlanta Icelandic. Áætlað var flug til Frankfurt í Þýskalandi fyrir flugfélagið Lufthansa þegar slysið varð. Um borð var fjögurra manna áhöfn sem sakaði ekki. Flugvélin var fullhlaðin.

Rannsókn slyssins er samkvæmt alþjóðlegum samþykktum á forræði rannsakenda í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hefur Rannsóknarnefnd flugslysa á Íslandi rétt á aðild að rannsókninni þar sem um íslensk skráða flugvél var að ræða. Fulltrúi RNF hélt þegar af stað til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og hefur starfað með þarlendum rannsakendum við rannsóknina. Með fulltrúa RNF starfa við rannsóknina ráðgjafar frá Flugmálastjórn Íslands, Air Atlanta og fulltrúi frá fyrri eiganda, Lufthansa í Þýskalandi en eigendaskipti höfðu átt sér stað fyrr á þessu ári.

Rannsókn er nú á frumstigi og er meðal annars verið að afla viðeigandi gagna og upplýsinga. Það er því ekki mögulegt að segja til um orsök slyssins á þessu stigi en rannsóknin beinist meðal annars að hjólabúnaði flugvélarinnar.

Senda grein