Fréttir

Sukhoi Superjet 100 flugslys á Keflavíkurflugvelli þann 21. júlí 2013

25 júl. 2013

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar flugslys er varð þegar rússnesk flugvél af gerðinni Sukhoi Superjet 100 lenti á flugbraut 11 á Keflavíkurflugvelli klukkan 05:23 að morgni þann 21. júlí síðastliðinn með lendingarbúnað uppi. Flugvélin var í prófunarflugi þar sem verið var að prófa eiginleika flugvélarinnar. Áhöfnin hugðist gera lágflug yfir flugbrautina við hliðarvindsaðstæður, með þyngd flugvélarinnar nálægt hámarksþyngd og með einn hreyfil óvirkan. Lendingarbúnaður var settur niður í aðfluginu og virtist aðflugið vera með eðlilegum hætti. Þegar flugvélin var yfir flugbrautinni var hjólabúnaðurinn settur upp á ný og hugðist áhöfnin fara í fráhvarfsflug. Þá missti flugvélin hæð og lenti á flugbrautinni með hjólin uppi með þeim afleiðingum að hún rann eftir flugbrautinni og hafnaði utan hennar. Fimm voru í áhöfn, fjórir slösuðust ekki en einn hlaut minniháttar meiðsl.

Rannsóknin er undir stjórn Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) en fulltrúi rússneskra yfirvalda ásamt ráðgjöfum sem snúa að hönnunarferli flugvélarinnar hafa aðstoðað við vettvangsrannsókn. Rannsóknarnefnd flugslysa í Rússlandi mun einnig aðstoða við rannsóknina. Rannsókn á slysinu beinist meðal annars að því, hvers vegna fráhvarfsflugið tókst ekki sem skyldi.

Senda grein