Fréttir

Alvarlegt flugatvik TF-FIJ (Boeing 757-200) undan strönd Suður-Englands þann 4. júní 2009

30 maí 2013

Þann 4.júní 2009 var Icelandair B757-200 flugvél TF-FIJ á leið frá París til Keflavíkur. Þegar flugvélin nálgaðist strönd Suður-Englands kom þykkur reykur snögglega upp í stjórnklefa og farþegarými flugvélarinnar. Skyggni flugmanna á mæla og tækjabúnað í stjórnklefa flugvélarinnar varð um tíma lítið sem ekkert.
 
Alvarleg bilun varð í vinstri hreyfli sem leiddi til þess að slökkva þurfti á honum og í kjölfarið var flugvélinni nauðlent á Gatwick flugvelli á Englandi.
 

Rannsóknin leiddi í ljós að láþrýstingseldsneytisdæla í vinstri hreyfli hafði gefið sig með þeim afleiðingum að eldsneyti blandaðist í smurolíukerfi hreyfilsins. Í kjölfarið lak eldsneytisblandaða smurolían inn í loftþjöppu hreyfilsins með þeim afleiðingum að reykur myndaðist sem barst svo inn í flugvélina í gegnum loftinntökukerfi flugvélarinnar.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að láþrýstingseldsneytisdælan sem gaf sig hafði ekki undirgengist nauðsynlegar viðhaldsskoðanir né nauðsynlegt viðhald. Að auki kom í ljós að viðhaldskerfi flugrekandans í tengslum við íhluti hreyfla var ábótavant.

Rannsóknarnefnd flugslysa leggur til sex tillögur í öryggisátt í skýrslunni og er þeim beint til Icelandair, Boeing, Flugmálastjórnar Íslands, Evrópsku Flugöryggisstofnunarinnar (EASA) og Alþjóðlegu Flugmálastjórnarinnar (ICAO).

Skýrsluna má finna hér.

Senda grein